144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

framhald uppbyggingar Landspítalans.

[15:21]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið þó að ég viti ekki alveg hvað það fól í sér eins og stundum þegar hæstv. ráðherra svarar.

Þingsályktunin var um spítala. En það er rétt hjá hæstv. forsætisráðherra að það á að vinna að endurbyggingu líka. En mig langar þá að spyrja beint út: Hvar á sú endurbygging að eiga sér stað? Hæstv. ráðherra hefur tjáð sig um að það eigi að færa spítalann. Það mun tefja þessa framkvæmd um einhverja mánuði og jafnvel ár. Eigum við ekki reyna að fá skýrt svar hvað það varðar?

Varðandi niðurskurðinn er rétt að það var skorið verulega niður á síðasta kjörtímabili eftir hrun, bankahrunið svokallaða. En ég ætla að vekja athygli hæstv. forsætisráðherra á því að fyrstu fjárlög hæstv. forsætisráðherra gerðu ráð fyrir milljarða niðurskurði til heilbrigðismála til viðbótar. Sem betur fer tókst með styrk þjóðarinnar, stjórnarandstöðunnar, launþegahreyfinganna og annarra að snúa þeirri þróun við. Ég hélt að við værum komin á beinu brautina, og ég er að reyna að fá svör við því: Erum við ekki á fullri keyrslu í að endurbyggja og byggja nýjan spítala við Hringbraut?