144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ásakanir forsætisráðherra um trúnaðarbrest.

[15:36]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það er aldeilis stíll yfir því að vera hér með dylgjur í garð einstaklinga og fara síðan bara. Mér finnst að hæstv. forsætisráðherra eigi að biðjast afsökunar og draga ummæli sín til baka. Ég sit í þessum samráðshópi. Það eru þrjár ástæður fyrir því, sem ég get tiltekið í fljótu bragði, að þar hefur engu verið lekið. Í fyrsta lagi situr þar sómafólk sem tekur hlutverk sitt mjög alvarlega og er reiðubúið að horfast í augu við það og axla þá ábyrgð að í verkefninu felast mjög miklar hættur og eitt sem verður að einkenna það verkefni er samráð og trúnaður. Í öðru lagi hafa fundirnir verið svo fáir að það er eðli málsins samkvæmt mjög erfitt að leka einhverju út af fundum sem eru ekki. Og í þriðja lagi er það einfaldlega þannig að ef einhver hefði viljað leka þá hefur ekki verið hægt að leka neinu vegna þess að allt hefur komið fram í fjölmiðlum áður. Það er ekki hægt að leka hlutum sem þegar hafa komið fram. Eini maðurinn sem hefur í raun og veru (Forseti hringir.) brotið trúnað er hæstv. forsætisráðherra sem fór í ræðu á flokksþingi (Forseti hringir.) eigin flokks og sagði hvað væri búið að ákveða í þessum efnum. Í hópnum upplifði ég það þannig, og ég vona að ég sé ekki að brjóta trúnað,(Forseti hringir.) að það væri rétt nýbyrjað að skoða kostina.