144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ásakanir forsætisráðherra um trúnaðarbrest.

[15:45]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það sem hér hefur gerst í dag vekur mér miklar áhyggjur af stöðu Alþingis. Þess vegna beini ég orðum mínum til hæstv. forseta. Við fáum ítrekað að sjá og nú kannski verstu myndina í langan tíma virðingarleysi hæstv. forsætisráðherra fyrir Alþingi og þeim þingmönnum sem hér eru. Það jaðrar við vænisýki þessar dylgjur og ásakanir sem koma frá hæstv. forsætisráðherra um aðra þingmenn á sama tíma og nánast allt það sem hann gagnrýnir brýtur hann sjálfur. Hér var fyrirspurnatími áðan og í einfaldri fyrirspurn minni, af því það er kominn aprílmánuður, óska ég eftir að vita hvort ekki sé allt á áætlun varðandi nýjan Landspítala, þá kemur hæstv. forsætisráðherra og segir: Ja, ég er ekkert viss um það, við eigum eftir að ákveða það. Jú, það eru að vísu fjárlög. Það er að vísu búið að ákveða þetta í þinginu í tví- eða þrígang og allir aðrir búnir að gefa yfirlýsingar um það, en ég er svona að hugsa málið, hvort ekki eigi að færa spítalann eitthvert annað og hvort fyrst eigi að fara í viðhald áður en er farið í nýbyggingar.

Hvers lags virðingarleysi er þetta fyrir Alþingi (Forseti hringir.) og þeim ákvörðunum sem hér eru teknar? Hæstv. forseti. Ég bið þig um að taka þetta upp í forsætisnefnd. (Forseti hringir.) Vandamál Alþingis er forsætisráðherra.