144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ásakanir forsætisráðherra um trúnaðarbrest.

[15:46]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað átakanlegt að verða vitni að þessu. Við höfum í landinu forsætisráðherra sem ræður ekki við samtalið í sal Alþingis. Hann getur ekki brúað bilið. Hann nær ekki að tala á milli flokkslína. Hann getur ekki laðað til sín fólk úr stjórnarandstöðunni eða unnið með þeim sem eru ekki með honum í stjórnmálaflokki. Það er átakanlegt að verða vitni að þessu vegna þess að það er þjóðin sem borgar á endanum brúsann þegar stjórnmálaflokkar, stjórn og stjórnarandstaða, getur ekki unnið saman. Þá reynir á að við höfum stjórnmálaforingja og forsætisráðherra sem finni hjá sjálfum sér stærðina til þess að geta gert þetta. Það er átakanlegt að verða vitni að því þegar hæstv. forsætisráðherra kemur með svona blammeringar í salnum en getur síðan ekki einu sinni verið hérna áfram til þess að standa við þær, til þess að rökstyðja þær efnislega. Það er sorglegt að verða vitni að þessu.