144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ásakanir forsætisráðherra um trúnaðarbrest.

[15:49]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég heyrði þingmenn hlæja þegar ég féll frá orðinu áðan. Það var nú einfaldlega vegna þess að ég þurfti að fara í símann einmitt þegar mér var gefið orðið og kem því hér nú til að ræða fundarstjórn forseta.

Hér hafa fallið gríðarlega þung orð hjá fulltrúum stjórnarandstöðunnar í dag, gríðarlega þung orð. Það liggur fyrir að hæstv. forsætisráðherra tjáði sig hér um sannleikann varðandi ákveðinn þingmann og sagði að viðkomandi þingmaður væri órólegur og hefði beðið um orðið undir liðnum um fundarstjórn forseta vegna ummæla hans. Ég vil minna á að samráðshópurinn skrifaði undir trúnaðaryfirlýsingu til þess að hópurinn gæti starfað og það mundi ríkja traust á milli. Þá gerist það og þingmenn eru æfir yfir því að hv. þm. Árni Páll Árnason kemur upp og játar raunverulega því sem forsætisráðherra var að segja, að hann hafi tjáð sig þann 8. desember við fjölmiðla um það sem fram fór í hópnum. Virðulegi forseti. Hvað er málið? Játning liggur fyrir. [Hlátur í þingsal.]