144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ásakanir forsætisráðherra um trúnaðarbrest.

[15:52]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til þess að beina þeirri ósk til hæstv. forseta að setjast nú niður með hæstv. forsætisráðherra og fara yfir þessi mál, til hvers er ætlast af honum sem forsætisráðherra í samskiptum við þingið og setja niður nokkrar grunnreglur í samskiptum við þingið og þingmenn, hvað er í lagi og hvað er ekki í lagi. Ég held að það sé komið ærið tilefni til þess.

Mér finnst alltaf best að reyna að tala um hlutina eins og þeir eru. Ég upplifi þetta þannig að flestir á þingi, fulltrúar allra flokka, gætu vel starfað saman og unnið að úrlausn mála, t.d. ótrúlega flókins úrlausnarefnis eins og afnám hafta er. Ég hugsa að við gætum mjög vel gert það. Hér er ný kynslóð stjórnmálamanna mjög lausnamiðuð. Það er eitt vandamál og það verður að glíma við það. (Forseti hringir.) Það vandamál heitir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og hann er hæstv. forsætisráðherra.