144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ásakanir forsætisráðherra um trúnaðarbrest.

[15:55]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er ekki mikill bragur á því þegar hæstv. forsætisráðherra kastar hér fram sprengju og flýr svo af hólmi. Það er kannski ekki gæfulegt fyrir almenning í landinu að horfa upp á svona umræðu og skilja ekkert í því hvað er hér á ferð. En framganga forsætisráðherra kallar á hörð viðbrögð allra þingmanna, þannig er það bara. Það er enginn leikaraskapur hér í gangi heldur er bara komið að því að fólki, hv. þingmönnum, er misboðið.

Ég mundi telja að hæstv. forsætisráðherra ætti að vera maður að meiri og koma hér og biðjast afsökunar á sínum orðum. Það er ekki sæmandi að ásaka menn um að hafa brotið trúnað þegar ekki er fótur fyrir því og hann sjálfur með framgöngu sinni á flokksþingi gengur fram og brýtur þann trúnað sem hann talar um að aðrir hafi brotið, með því að ræða opinskátt um þessi mál þar.(Forseti hringir.) Og maður spyr sig: Er hæstv. forsætisráðherra starfi sínu vaxinn eða ekki? Það fer vonandi bráðlega að koma í ljós.