144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ásakanir forsætisráðherra um trúnaðarbrest.

[16:02]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það er mjög hentugt fyrir hv. þm. Ásmund Einar Daðason að koma og lesa hér upp úr umfjöllun Kjarnans um þetta mál, en hann sleppir alveg að lesa upp úr umfjöllun Morgunblaðsins fyrir þennan fund, vegna þess að umfjöllun Kjarnans var á nákvæmlega sömu nótum efnislega. Eini munurinn var sá að umfjöllun Kjarnans kom á eftir fundinum en Morgunblaðsins á undan. Hv. þingmaður getur kannski útskýrt hvernig í þessu liggur. Eða kannski er það bara einfaldlega þannig að maður veit aldrei hver hefur sagt hvað í þessu. Hæstv. forsætisráðherra hefur talið sig vera að vitna í kröfuhafa en í ljós hefur komið að hann er að vitna í hv. þm. Ásmund Einar Daðason. [Hlátur í þingsal.] Kannski er það sem við fáum hér byggt á einhverju sem hann hefur sagt í einhverri grein einhvers staðar.

Það stendur náttúrlega ekki steinn yfir steini í þessu. Það sem er að koma í ljós hérna er að menn í hæstv. ríkisstjórn ráða ekki við að taka samtalið á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Það er hin dapurlega staðreynd sem opinberaðist með svo hörmulegum hætti í dag.