144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

kjarasamningar og verkfallsréttur.

[15:03]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur á síðustu vikum ítrekað talað niður verkfallsréttinn og síðast nú um helgina. Samhliða hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins talað um að það kunni að þurfa að takmarka verkfallsrétt með einum eða öðrum hætti og að vel sé hugsanlegt að setja lög á verkföll. Hæstv. fjármálaráðherra sagði um helgina að verkalýðshreyfinguna skorti umboð til að gera samninga og að núverandi umgjörð verkfallsréttarins væri ófullnægjandi.

Ég vil þess vegna beina fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra: Verkfallsrétturinn, þetta helga vopn hins vinnandi manns, það eina sem launafólk hefur í sjálfu sér til þess að knýja fram sannvirði vinnu sinnar, hefur ekki verið vandamál á undanförnum árum þegar við höfum búið svo vel að hafa ríkisstjórn hér í landinu sem hefur getað náð samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins um meginlínur á vinnumarkaði. Það skorti ekkert á umboð verkalýðshreyfingarinnar til þess að semja um kaup og kjör 21. desember 2013. Það sem hefur skort á er að ríkisstjórnin styðji við þá samninga. Á einu og hálfu ári hefur henni tekist að koma samskiptum á vinnumarkaði í algjört uppnám með því að hverfa frá þeirri launastefnu sem hún markaði sjálf og með því að demba nýjum og nýjum álögum á venjulegt fólk og ofbjóða réttlætistilfinningu venjulegs fólks í landinu með því að létta sköttum af þeim sem best standa.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Er ekki tími til kominn að ríkisstjórnin fari að átta sig á því að það eru hennar eigin aðgerðir, hennar eigin stefnumörkun og hennar eigin viðbrögð við samningum aðila vinnumarkaðarins sem hafa valdið því ástandi sem nú er við að etja?