144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

siðareglur fyrir stjórnsýsluna.

[15:28]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Við erum þá greinilega sammála um að það eitt og sér að siðareglur séu til staðar sé gagnlegt en ekki nóg. Eins og hæstv. forsætisráðherra sagði rétt áðan eru þær siðareglur sem eru til staðar bara til hliðsjónar og maður þarf ekki endilega að fara eftir þeim neitt sérstaklega. Það verða að vera einhvers konar viðurlög við því að fara gegn því sem siðareglurnar eiga að miða að, sem er að menn noti ekki það almannavald sem þeir hafa í þágu sérhagsmuna. Um það snýst þetta allt saman. Það þarf meiri viðurlög.

Nú höfum við Píratar lagt fram tvö þingmál sem snerta þetta, annað er um hagsmunaskráningu þingmanna, skrá skuli skýrt alla fjárhagslega og efnahagslega hagsmuni o.s.frv., að viðbættu því að ef menn nota innherjaupplýsingar geti það varðað við lög og jafnvel refsingu. Við þurfum alla vega að byrja að fikra okkur áfram á þeirri braut. Ég vil spyrja hvort ráðherra mundi finnast það eitthvað slæmt, finna það á eigin skinni, ef við fikruðum okkur áfram með að festa þetta meira í lög og beita viðurlögum við því þegar menn fara með almannavald í þágu sérhagsmuna.