144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

þjónustusamningur við Samtökin ´78.

711. mál
[16:09]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Mitt svar, sem ég held að hafi komið nokkuð skýrt fram í lok ræðu minnar, var svar við spurningu hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur um hvort ríkinu beri að gera þjónustusamning við Samtökin ´78 þar sem þau gegni svo miklu hlutverki við fræðslu um málefni hinsegin fólks sem tryggi þessu mikilvæga framlagi fjárhagslegan grundvöll. Mitt mat er að það eigi ekki að gera þjónustusamning við einstök félagasamtök um fræðslu heldur vinna samkvæmt fyrirkomulagi sem er tiltölulega nýtt, var komið á á síðasta kjörtímabili, sem snýr að stuðningi við frjáls félagasamtök.

Ég vil líka benda á að hér kom upp í pontu fyrrverandi velferðarráðherra og sá ráðherra hefði getað gert samning ef hann hefði talið sér kleift að gera það — en gerði ekki. Við höfum reynt að vinna þetta faglega varðandi úthlutun á styrkjum til velferðarmála. Ég benti á að við hefðum fengið 69 umsóknir og úthlutað til 46 félagasamtaka og þar undir eru samtök sem vinna mikilvæg verkefni sem snúa að samfélagi okkar, verkefni sem skipta verulega miklu máli og ég held að við getum öll verið sammála um það. Meira að segja hefur komið hér upp að þingmenn hafa verið að ræða önnur frjáls félagasamtök sem hefðu viljað fá meiri framlög. Við höfum aukið framlögin til Samtakanna ´78. Ég vonast til að fá tækifæri til að geta stutt þau áfram á þessu ári en ég legg líka áherslu á að það er mjög mikilvægt að við setjum lagaramma utan um þau frjálsu félagasamtök sem fá fjármuni frá ríkinu.

Það er ekki enn komið fram frumvarp um almannaheillasamtökin. Ég vil líka benda á að þeir þingmenn sem sitja í fjárlaganefnd þekkja að Ríkisendurskoðun hefur gert athugasemdir (Forseti hringir.) um hvernig hefur verið staðið að fjárveitingum og samningagerð varðandi ýmis verkefni hjá velferðarráðuneytinu. Við erum að vinna að því að bæta úr því (Forseti hringir.) og vonandi tekur það meðal annars á þessu.