144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:07]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kannski stenst plaggið ekki tímans tönn. Hv. þingmaður talar um launaforsendurnar. Mér hefði fundist, og finnst, að í plöggum eins og þessum þar sem gert er ráð fyrir þessum launaforsendum ættu menn að setja upp hvað gerist. Við erum með launahækkanir upp á 3,5%. Hvað gerist ef þetta verða 5% eða 7% þannig að það yrði sýndur ramminn á því? Það er vissulega hætta á að plaggið standist ekki. Hvað gerist ef launin verða miklu meiri en búist var við? Heilbrigðiskerfið mundi náttúrlega taka eitthvað af þessum launahækkunum, en það eru ekki allt laun, og þá er hætta á að það yrði skorið af öðru.

Það hefur komið fram í umræðunni að fólk hefur áhyggjur af fjárfestingu og viðhaldi og segir að ekkert sé lagt til vegakerfisins, kannski sérstaklega, þ.e. það er ekki sérstaklega minnst á það. Það er mjög kvíðvænlegt vegna þess að fjárfesting er til að byggja upp til framtíðar. Þó að það sé gott og blessað að vera með fjögurra ára áætlun vildum við kannski sjá í þeirri fjögurra ára áætlun að það væri verið að hugsa til lengri framtíðar, 10–15 ára, og það sæist í fjárfestingum.