144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:24]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ein athyglisverðasta blaðsíðan hérna er örugglega blaðsíða 22 sem hv. þingmaður var að vitna í varðandi vaxtakostnað hins opinbera. Eins og réttilega er bent á er hann meiri en allra aðildarríkja Evrópusambandsins og meiri en vaxtakostnaður Grikklands.

Hér segir beinlínis að þetta gefi til kynna að vaxtakjörin sem okkur bjóðast séu mun lakari en önnur ríki hafa aðgang að á fjármagnsmörkuðum. Eflaust skýrist þetta að einhverju leyti af því að hér varð allsherjarhrun fyrir nokkrum árum og að við eigum eftir að endurvinna traust á alþjóðamörkuðum en það er samt ekki hægt að skilja þetta öðruvísi en að það hamli okkur að hafa hér íslensku krónuna. Mig langar aðeins að velta einu upp. Ef við tækjum upp gjaldmiðil eins og evru, ég veit að við hv. þingmaður deilum skoðunum þar, og það yrði til bóta fyrir íslenskt samfélag, að hvaða leyti mundi það tryggja okkur endilega betri vaxtakjör? Skiptir ekki eftir sem áður máli að það sé traust á stjórnvöldum og að við séum með efnahagsstefnu, framtíðarsýn og að allt það sé í lagi?

Vextir erlendis eru lágir en maður hugsar til þess með hryllingi þegar vextir fara að hækka, sem þeir munu eflaust gera einhvern tíma ef það verður einhver smáverðbólga í okkar helstu viðskipta- og nágrannalöndum. Þá mun auðvitað vaxtastigið hækka. Hvaða afleiðingar hefur það þá? Við erum að tala um 70–80 milljarða í vaxtakostnað á hverju einasta ári bara næstu árin. (Forseti hringir.) Við þyrftum að lækka skuldirnar.