144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:29]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða ræðu og hún hefur gert að umtalsefni, ætlaði nú að reyna að komast í fyrirspurn um það fyrr í dag við fjármálaráðherra og ræddi það svo í ræðu sinni, furðulegar áhyggjur hæstv. fjármálaráðherra af vaxandi jöfnuði á Íslandi. Við þekkjum það, ég og hv. þingmaður, sem vorum hér á síðasta kjörtímabili með þá ábyrgð á okkar herðum ásamt öðrum í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, eða stuðningsmönnum þeirrar ríkisstjórnar, að rétta af ríkissjóð eftir fjármálahrun. Við tókum við ríkissjóði í 217 milljarða halla og skiluðum honum hallalausum í hendurnar á hægri stjórninni. Hér er ríkisfjármálaáætlunin sem sýnir hvert við stefnum eftir þann ótrúlega árangur.

Ég hef áhyggjur — eða ég kem kannski inn á það í síðara andsvari. Ég er mjög hlynnt skattheimtu. Ekki vil ég innheimta skatta að óþörfu. Það þarf að vera gert af skilvirkni og við megum ekki íþyngja um of, en skattheimta á rétt á sér af því að með góðu tekjujafnandi kerfi er hún leið til þess að auka jöfnuð í samfélaginu. Hún aflar líka tekna fyrir samneysluna sem þýðir heilbrigðiskerfið, menntakerfið, löggæsla, og velferðarkerfið í heild sinni. En það er augljóst að þessi kerfi sem tóku á sig álögur vegna hrunsins eiga ekki að fá hlutfallslega til baka það sem þau hafa lagt til. Ég vil (Forseti hringir.) heyra hvaða áhrif hv. þingmaður telji að samneysluþátturinn hafi á jöfnuð.