144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Öll við sem hér störfum höfum ákveðnar hugsjónir og baráttumál sem við viljum standa fyrir. Það getur verið afar mismunandi hvaða málefni það eru eins og störf okkar geta gefið til kynna. Auðvitað eigum við öll að bera virðingu fyrir skoðunum annarra en stundum verður maður auðvitað að segja það sem manni finnst og það ætla ég að gera hér.

Það er erfitt að sitja undir orðum hv. þingmanns sem telur það lýðskrum að vilja afnema verðtryggingu. Það getur ekki hafa farið fram hjá neinum hv. þingmanni í þessum sal að ég er einn þeirra hv. þingmanna sem vilja afnema verðtryggingu af neytendalánum. Og af hverju er það? Ástæðan er sú að mig langar ekki til að sjá heimili landsins og fjölskyldur standa uppi með stökkbreytt verðtryggð lán ef hér verða einhver efnahagsleg áföll. Önnur ástæðan er sú að verðtryggð útlán geta leitt til aukinnar verðbólgu eða hækkað höfuðstól verðtryggðra lána við ákveðin skilyrði. Hækkun höfuðstóls er færð til aukinna tekna hjá bönkum þannig að eigið fé þeirra hækkar. Þannig eykst svigrúm þeirra til peningamyndunar. Það getur jafnframt aukið verðbólgu sem hækkar lán heimilanna.

Viðskiptabankarnir hagnast verulega þegar verðbólga er til staðar þar sem þeir eiga meira verðtryggt en þeir skulda. Það virðist því vera bönkunum mikið hagsmunamál að verðbólga og verðtrygging sé til staðar. Það er staðreynd að viðskiptabankarnir hagnast um 1,5 milljarða ef verðbólga hækkar um 1%. Þarna á sér stað hrein eignatilfærsla frá heimilum landsins til fjármálastofnana.

Það er mikilvægt að þau frumvörp er varða afnám verðtryggingar á neytendalánum sem eru á þingmálaskrá hæstv. fjármálaráðherra komist inn á þessu þingi.

Að auki verð ég að nefna þau húsnæðisfrumvörp er hv. þm. Kristján Möller talaði um í ræðu sinni áðan, það er mikilvægt að við sem bíðum eftir að þau frumvörp komist áfram látum aðeins í okkur heyra og ýtum á að þau komist í gegn.