144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Baráttudagur verkalýðsins 1. maí verður haldinn hátíðlegur á föstudaginn. Að þessu sinni í skugga einhverra hörðustu vinnumarkaðsdeilna seinni ára. Öllum má ljóst vera að þolinmæði þeirra stétta sem lægst hafa launin er þrotin. Starfsgreinasambandið gerir kröfu um 300 þús. kr. lágmarkslaun fyrir fulla vinnu og BHM vill að menntun sé metin til launa. Sanngjarnar kröfur að mínu mati.

Það er athyglisvert en þó raunar líka fyrirsjáanlegt að fylgjast með viðbrögðum atvinnurekenda og hægri manna við þessari stöðu. Fleiri en einn og fleiri en tveir forustumenn Sjálfstæðisflokksins bregðast við með því að ýja að því endurskoða þurfi verkfallsréttinn. Það gerði nú síðast hæstv. fjármálaráðherra hér í þessum ræðustól í gær með orðalaginu að hann vildi þora að taka umræðuna, sem virðist reyndar vera tískufrasi hjá þeim sem slá fram stuðandi viðhorfum.

Af orðum hæstv. fjármálaráðherra mætti ætla að einhver eðlisbreyting hefði átt sér stað á verkföllum og að nú hafi sú mikla breyting orðið að þeim sé ætlað að bíta. Auðvitað hefur verkfallsvopninu alltaf verið beitt þannig að það bíti. Kennarar hafa ekki farið í verkföll á sumrin eða verslunarfólk í janúar. Því hefur hins vegar alltaf mátt treysta að hægri öflin í þessu landi kveinki sér undan verkalýðshreyfingunni og vilji endilega taka umræðuna um að endurskoða verkfallsréttinn. Þannig var það fyrir 20 árum, þannig er það nú og þannig verður það líklega líka eftir 20 ár.