144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ef ég hef litið rétt á dagatalið í morgun þá er kominn 28. apríl, það er staðfest. Aprílmánuður er sem sagt að verða búinn, það eru eftir fjórar til fimm vikur af þinghaldinu hér, 12 til 15 raunverulegir þingfundadagar að frátöldum helgum og nefndadögum.

Herra forseti. Enn bólar ekkert á samgönguáætlun. Kjörtímabil þessarar ríkisstjórnar er hálfnað. Það eru tvö ár frá síðustu alþingiskosningum. Þeir gaufuðu sér að vísu við pönnukökubakstur og át í heilan mánuð áður en ríkisstjórninni var komið saman, en kjörtímabilið er hálfnað, herra forseti, og þessi ríkisstjórn hefur ekki enn komið frá sér samgönguáætlun eða endurskoðaðri samgönguáætlun.

Nú rignir yfir okkur neyðarópunum um ástandið í vegakerfinu. Hv. þm. Sigríður Á. Andersen gerði það að umtalsefni hér áðan; fór kannski frjálslega með staðreyndir hvað varðaði tekjuáhrifin af umhverfisvænu eldsneyti, en það er annað mál. Það er sama hvort það eru ónýtir malarvegir, 40 til 50 ára gamlir til hliðar við eða á meginþjóðvegakerfinu sem sáralítið viðhald hafa fengið, þjóðvegakerfið sjálft eða stofnbrautirnar hér í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu, sem Vegagerðin ber ábyrgð á, viðhald er í svo algjöru lágmarki að vegakerfið liggur undir skemmdum og nýframkvæmdir eru engar. Eins og hv. þm. Kristján L. Möller hefur orðað það þá verður þetta heimsmet í að gera ekki neitt, eða Íslandsmet í að gera ekki neitt í samgöngumálum.

Nú er það að vísu þannig að tillaga um ríkisfjármálaáætlun til næstu fjögurra ára færir okkur því miður heim sanninn um að ástandið stendur lítið til bóta næstu fjögur árin ef þessi ríkisstjórn eða meiri hluti hennar nær fram vilja sínum. Þar er gert ráð fyrir nánast engri viðbót í heildarfjárfestingum ríkisins næstu fjögur árin. 1,2% af vergri landsframleiðslu, eða um 30 milljarðar kr., til og með ársins 2019, það teiknar ekki til góðra hluta.

En eigi þessi bitri veruleiki að verða svona þá skal ríkisstjórnin gjöra svo vel og sýna hann og koma með þá samgönguáætlun (Forseti hringir.) sem sýnir okkur svart á hvítu (Forseti hringir.) að hún ætlar ekki að gera neitt í vegamálum næstu fjögur árin.