144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil hefja þessa ræðu mína á því að lýsa því yfir að það sé svolítið sérkennileg staða komin upp þegar þingflokkur Samfylkingarinnar ályktar um kjaramál þegar samfélagið logar allt í verkföllum og hverjir þola það verst? Jú, Viðskiptaráð og Framsóknarflokkurinn. (Gripið fram í.) Þá vitum við það.

Ég kem hér upp til þess að lýsa yfir miklum áhyggjum af því að ein helsta auðlind landsins, ósnortin náttúra, liggi undir miklum skemmdum vegna aukins ferðamannastraums hingað til lands. Nú er það svo að ferðaþjónustan er orðin stærsta útflutningsgreinin á Íslandi. Við viljum auðvitað veg hennar sem mestan og tekjur af greininni sem mestar og bestar en þá þurfum við að viðhalda auðlindum okkar, ekki síst auðlindinni ósnortinni náttúru.

Lagt var fram af hálfu iðnaðar- og viðskiptaráðherra óburðugt frumvarp um náttúrupassa og liggur fyrir að frumvarpið mun ekki verða að lögum, enda er það þvílíkt vandræðamál að fáir geta hugsað sér að styðja það. Það breytir því ekki að við verðum að fá tekjurnar sem náttúrupassinn átti að afla til þess að mæta uppbyggingu á ferðamannastöðum og til þess að búa til nýja viðkomustaði fyrir ferðamenn til að dreifa álaginu á landið.

Við í Samfylkingunni viljum því leggja ríka áherslu á að tilkynnt verði um auknar fjárveitingar í sjóðinn um uppbyggingu ferðamannastaða sem svarar tekjunum sem áttu að koma af náttúrupassa, sem eru á annan milljarð, og það þarf að tilkynna nú þegar að það eigi að setja þá fjármuni þarna inn svo hægt sé að byrja að veita styrki til þeirra fjölmörgu aðila sem sóttu (Forseti hringir.) um fjárveitingar úr sjóðnum. Eftirsóknin í sjóðinn nemur meira en 2 milljörðum. (Forseti hringir.) Það verður að fá yfirlýsingu strax um slíkar fjárhæðir.