144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsaleigulög.

696. mál
[15:53]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, það er náttúrlega alveg fráleitt að ekki hafi verið haft samráð við þessa aðila, það verð ég að segja. En hins vegar vil ég leggja áherslu á að það er ekki þannig að hagsmunaaðilar eigi að skrifa lagafrumvörp. En það er auðvitað mjög bagalegt að þessir aðilar hafi ekki verið upplýstir eða leitað eftir sjónarmiðum þeirra.

Ég vil þó benda á að þegar hæstv. ráðherra áttaði sig á því að að þetta hefði farið svona óheppilega þá kallaði hún þau strax til, og mér skilst að verið sé að leita leiða til þess að sætta sjónarmið en þó þannig að ásetningur ráðherra nái fram að ganga.

Mér hefur líka þótt leiðinlegt að hæstv. ráðherra hefur talað um þeir sem lýst hafi yfir áhyggjum af þessu séu eingöngu að hugsa um hag leigusala en ekki leigjenda, en ég vil ítreka að Félagsstofnun stúdenta og Félagsbústaðir eru öflugustu leigufélög landsins sem ríkið treystir með þeim hætti að við niðurgreiðum vexti vegna lána þessara félaga. Það eru félög sem við höfum lagt mikið traust á með fjárveitingum úr ríkissjóði og sem sinna gríðarlega mikilvægu samfélagslegu hlutverki. Þau hafa innt það mjög vel af hendi og fóru í gegnum hrunið án alvarlegra áfalla þó að þessi félög bíði enn eins og önnur félög og húsnæðissamvinnufélög eftir höfuðstólsleiðréttingunni sem hér fór fram og þar átti að koma síðar til móts við leigufélög og húsnæðissamvinnufélög.