144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsaleigulög.

696. mál
[16:14]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja aftur á að þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir andsvarið.

Ástæðan fyrir því að ég vísaði í síðasta kjörtímabil var sú að ég var að reyna að draga upp ákveðna mynd af því að þetta er flókinn málaflokkur. Auðvitað var ýmislegt gert eins og ég sagði í andsvari mínu. Mikil og góð vinna fór fram innan velferðarráðuneytisins varðandi húsnæðismál, en það komu ekki tillögur eða frumvörp fram á sjónarsviðið er lutu að leigumarkaðnum. Ég veit að þetta voru stór og erfið verkefni sem unnið var að. Já, það er eitt ár síðan verkefnisstjórnin skilaði af sér, en ég er ánægð að þessi frumvörp séu komin fram.

Varðandi höfuðstólsleiðréttinguna, 80 milljarðar sem beina leiðréttingin varð, 70 milljarðar í gegnum séreignarsparnað. Um var að ræða 150 milljarða. Nú er það frumvarp sem hér um ræðir, frumvarp um breytingu á húsaleigulögum, eitt frumvarp af fjórum. Við höfum verið að heyra í aðilum sem vinna hjá húsnæðissamvinnufélögum og þeir lýsa mikilli ánægju, ákveðinn hópur hjá húsnæðissamvinnufélögunum vegna frumvarps er varðar húsnæðissamvinnufélögin, og þeir telja að þau sem hafa svigrúm til þess geti með ákveðnum hætti nýtt sér þau úrræði sem fram koma þar í því að endurfjármagna sín félög og búa til sína leiðréttingu. Auk þess koma fram, sem ég vona auðvitað að við náum fram og við erum sammála um það, ég og hv. þm. Kristján L. Möller, við vonum að húsnæðisbætur komist út úr kostnaðarmati sem hefur í för með sér stóraukinn stuðning við þá sem eru á leigumarkaði. Ég vona að það geti komið eitthvað þar á móti.