144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsaleigulög.

696. mál
[16:19]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ástríðufullur stjórnmálamaður og leyfi mér oft að láta tilfinningarnar ráða miklu. Ég var að spyrja um tilfinningar hv. þingmanns. Hvernig líður henni gagnvart Sjálfstæðisflokknum sem hefur í reynd læst niður það frumvarp sem mestu skiptir? Hv. þingmaður veit það jafn vel og ég að þau tvö frumvörp sem hæstv. félagsmálaráðherra hefur með herkjum nánast slitið út milli tanna samstarfsflokksins skipta ákaflega litlu máli miðað við vægi þeirra bóta sem vonandi má finna í stóra frumvarpinu, að minnsta kosti öðru þeirra. Þetta er það sem allir bíða eftir.

Út af því hvernig staðan er á húsnæðismarkaði hefur það sennilega aldrei verið jafn erfitt fyrir fólk að koma þar undir sig fótum. Við vitum að í dag er staðan þannig að láglaunafólk, þar sem báðar fyrirvinnur eru í tryggum störfum, kemst með herkjum, og sumt ekki, í gegnum greiðslumat. Þetta er staða sem hefur aldrei verið uppi. Hún var ekki uppi þegar ég var ungur og þurfti að byrja lífið eða ýmsir aðrir hér í þessum sal. Þetta er það sem skiptir máli.

Hæstv. félagsmálaráðherra hefur gefið stórar yfirlýsingar um þetta. Framsóknarflokkurinn hefur barið sér á brjóst. Það er bara eðlilegt að ég komi hér sem fulltrúi kjósenda og inni hæstv. ráðherra eftir því hvenær þessi frumvörp komi fram og þegar hv. þingmaður heldur sína ágætu ræðu þá spyr ég hana: Á hún von á því að þau frumvörp komi á þessu þingi?

Ég gef henni svo það ráð, og hæstv. félagsmálaráðherra, að ef menn ætla að ná einhverjum árangri gagnvart Sjálfstæðisflokknum, af því að ég hef starfað með honum, ef um er að ræða félagsleg málefni, þá er ekki bara nóg að sýna tennur og urra, það þarf líka að bíta. Mér finnst vanta bitið í þingmenn Framsóknarflokksins þegar kemur að þessum málaflokki.