144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsaleigulög.

696. mál
[17:00]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum og virðist margt sem kemur fram þar ágætt við fyrstu sýn. Ég er að mörgu leyti ánægð með að frumvarpið sé komið fram og tek undir ýmislegt jákvætt sem hefur verið sagt um ýmsar réttarbætur gangvart leigjendum. Aftur á móti hefur líka heyrst gagnrýni á frumvarpið og gagnrýni á ýmsa þætti komið fram í fjölmiðlum, en velferðarnefnd á auðvitað eftir að fjalla um málið og senda út umsagnir og taka umræðu um þá gagnrýni sem helst kemur fram á frumvarpið. Ég ætla að byrja á að ræða gagnrýnina og fara í framhaldinu yfir það sem mér þykir vera til bóta á því lagaumhverfi sem er í dag, þ.e. húsaleigulögin. Það hefur komið fram hörð gagnrýni frá formanni Húseigendafélagsins sem gerir miklar og alvarlegar athugasemdir við frumvarpið og breytingar á núgildandi lögum. Með leyfi forseta vil ég vitna í hans orð, en hann tekur djúpt í árinni og segir:

„Hvers vegna að laga það sem ekki er bilað? Frumvarpið í heild er vont og viðvaningslegt og eyðileggur allar helstu réttarbætur laganna frá árinu 1994. Þá hafði leigumarkaðnum næstum því verið útrýmt og leigusalar létu húsnæðið frekar standa autt en leigja það út.“

Ég hef ekki trú á því að tilgangur þessa frumvarps sé að eigendur leiguhúsnæðis hætti að leigja út húsnæði sitt. Það er ekki eitthvað sem við viljum sjá gerast í kjölfarið. En það þarf að fara yfir slíka gagnrýni þegar hún kemur frá aðila sem hefur verið í þessum bransa, eins og hann orðaði það, í fjölda ára. Það hefur líka komið gagnrýni frá rekstraraðilum Félagsbústaða sem segja að þetta þýði uppnám í félaginu og að ef frumvarpið verði að lögum sé ekki lengur heimilt að takmarka þjónustu Félagsbústaða við þá sem eru verst settir félags- og fjárhagslega og vonast er til þess að það verði skoðað sérstaklega. Ég skil hæstv. ráðherra þannig að hún vilji skoða þau einstöku mál, sem einnig snúa að félagsbústöðum stúdenta. Komið hefur fram gagnrýni á að vera ekki með skammtímaleigu í stúdentaíbúðum, því að sú starfsemi gengur út á að leigja til skamms tíma svo að það verði endurnýjun og þeir sem eru á biðlista komist að, það þarf að mæta þeim langa biðlista sem þar er.

Þetta eru atriði sem þarf að taka tillit til og skoða og eflaust er ýmislegt annað sem á eftir að koma fram þegar málið hefur farið til umsagnar og eftir meðferð velferðarnefndar á málinu, eflaust koma fram einhverjar breytingartillögur.

Ég get alveg tekið undir ýmislegt sem kemur fram hér. Það er oft gott að skoða umsögn frá fjárlagaskrifstofunni sem dregur saman kjarnann í málinu. Það kemur fram að verið sé að vinna að því að auka réttaröryggi leigjenda og skapa festu á milli leigusala og leigutaka á gildandi leigusamningi á gildistíma leigusamnings. Ég held að þetta sé eitt af því sem hefur valdið því að fólk er mjög óöruggt á leigumarkaðnum, af því að það hefur ekki fast land undir fótum varðandi öryggi í því húsnæði sem það leigir. Það þekkja allir, jafnvel á sjálfum sér og úr umhverfi sínu, að fólk hrekst á milli hverfa á höfuðborgarsvæðinu með stuttu millibili og börnin milli skóla. Það veldur miklum áhyggjum og erfiðleikum hjá fjölskyldum að búa ekki við öryggi til lengri tíma í leiguhúsnæði. Það er mjög margt óásættanlegt eins og það er í dag og þess vegna tek ég undir að skapa þarf öryggi fólks á leigumarkaði til lengri tíma svo að það hafi fullvissu og framtíðarsýn um hversu öruggt það getur verið í leiguhúsnæði sínu.

Hér er enn fremur bent á að styrkja eigi að fullnægjandi brunavarnir séu fyrir hendi. Það er eitthvað sem maður hefði haldið að væri í lagi en því miður hefur það ekki reynst raunin. Manni verður hugsað til þess að mjög algengt er að menn útbúi atvinnuhúsnæði, iðnaðarhúsnæði til leigu og oft gengið mjög langt í þeim efnum, fólki jafnvel hrúgað saman, fólki sem er kannski komið hingað til lands til að vinna í takmarkaðan tíma, erlent vinnuafl, því er boðið upp á mjög óásættanlegan aðbúnað í slíku húsnæði án alls öryggis. Þetta á ekki að viðgangast og er ljótur blettur á samfélagi okkar. Ég vona hvað varðar hluti eins og að tryggja úttekt á íbúðarhúsnæði og fullnægjandi brunavarnir að farið verði ofan í saumana á hvers konar húsnæði er samþykkt sem leiguhúsnæði, að allt þetta ýti undir að ekki viðgangist á leigumarkaðnum að bjóða upp á slíkt.

Einnig er í frumvarpinu lögð áhersla á að samræma úrræði sem leigjandi getur gripið til þegar ástand leiguhúsnæðis er ófullnægjandi í upphafi leigutíma og síðar á leigutímanum ef leigusali hefur ekki sinnt viðhaldi, þar sem afleiðingar fyrir leigjanda séu svipaðar eða þær sömu í báðum tilfellum. Þetta tel ég til bóta. Það þarf að liggja fyrir að húsnæði sem leigt er út sé leiguhæft og oftar en ekki skapast deilur á milli leigutaka og leigusala um hve langt eigi að ganga í að lagfæra húsnæðið sem er í leigu. Síðan vil ég nefna að í frumvarpinu er ákvæði um eftirlit ráðherra með starfsemi leigumiðlara, svo sem að hann geti veitt leigumiðlara áminningu og svipt hann leyfi til að reka miðlun með leiguhúsnæði, annaðhvort tímabundið eða ótímabundið. Við fyrstu sýn sýnist mér eiga að vera meira öryggi í því, ég hef er samt ekki alveg séð hvernig best sé að framfylgja nákvæmlega því eftirliti af hálfu ráðherra, hvernig það fari fram, því að þetta er gífurlega stór leigumarkaður sem um er að ræða, bæði á höfuðborgarsvæðinu og auðvitað úti á landi líka.

Að því sögðu vil ég eins og aðrir sem hafa talað á undan mér minnast á að það eru tvö ár síðan þessi ríkisstjórn tók við völdum og húsnæðismálin og leigumarkaðurinn voru eitt af þeim málum sem áttu að vera á forgangslista ríkisstjórnarinnar. Enn er ekki komið inn í þingið annað en þetta frumvarp um húsaleigulög og frumvarp sem liggur fyrir um húsnæðissamvinnufélög. Stóru frumvörpin, sem sneru að stofnstyrkjum til byggingar leiguíbúða og húsnæðisbótum, eru enn í fjármálaráðuneytinu til skoðunar. Það vekur vissulega áhyggjur manns um að þau náist ekki í gegn. Ég held að Framsóknarflokkurinn hljóti að hafa miklar áhyggjur af því að þetta stóra mál, sem er burðarás í stefnuskrá þeirra eða samningum á milli flokka, sé ekki komið lengra en þetta. Hvar strandar? Ég held að félagshyggjuarmur Framsóknarflokksins ætti að fara að brýna klærnar. Það var eitthvað talað um það áðan að bíta frá sér en ég hvet Framsóknarflokkinn til að brýna klærnar og hætta að senda öðrum ráðuneytum eitthvað af nammibarnum, það verður að gera eitthvað annað og standa í fæturna með það að fjármagn fylgi þessum stóru og miklu frumvörpum sem skipta almenning í landinu gífurlega miklu máli og gætu verið hluti af heildarniðurstöðu varðandi kjarasamninga.

Ég vil líka minna á að leigumarkaðurinn er í miklu uppnámi víða um land. Það gleymist oft í þessari umræðu, þegar við horfum fyrst og fremst á hversu erfiður leigumarkaðurinn er og leigan er há á höfuðborgarsvæðinu, að víða um land er sem betur fer ákveðinn uppgangur í ýmsum atvinnugreinum. Fólk hefur áhuga á að koma á þá staði og er kannski ekki tilbúið til að kaupa sér húsnæði þótt möguleiki sé á því. Stundum er ekki húsnæði til sölu og þá er enginn leigumarkaður fyrir hendi sem hamlar uppbyggingu og þróun á mörgum stöðum úti á landi. Ég nefni sem dæmi Vesturbyggð þar sem þetta hamlar þeirri uppbyggingu sem þar er í kringum laxeldi og ýmsa aðra starfsemi sem hefur verið að eflast, eins og kalkþörungaverksmiðjan. Síðustu fréttir sem ég fékk af Bíldudal, því litla þorpi, var að ekki væri hægt að fá húsnæði þar lengur en menn eiga von á því að þar verði þörf fyrir tugi starfa á næstu mánuðum og missirum. Það er hægt að yfirfæra á ýmsa staði úti á landi. Það að hægt sé að veita stofnstyrki til byggingar leiguíbúða, og þá til húsnæðissamvinnufélaga sem ekki eru rekin með hagnaðarsjónarmiðum, skiptir því ekki aðeins höfuðborgarsvæðið máli heldur líka landsbyggðina.