144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

úthlutun makríls.

[11:03]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Hér koma einstaka þingmenn upp, eins og hv. þingmaður, og ræða mikið um gjafakvóta. Það er algjört rangnefni, hér er um að ræða tímabundna úthlutun til sex ára þar sem tekið er veiðigjald og einnig viðbótargjald fyrir þann hluta. (Gripið fram í: Hver eru verðmætin í bókhaldinu?) Hér er kallað fram í: Hver eru verðmætin í bókhaldinu? Sumir hafa gengið svo langt að líkja saman verðmætunum með staðbundnum stofni eins og þorski sem verið hefur hér í árhundruð, og stofni sem er nýlega kominn, gæti farið, gæti vaxið, enginn veit, ekki búið að semja um á alþjóðavettvangi, og sitthvað fleira, óvissa. Eru menn virkilega að bera saman verðmæti aflahlutdeildar í þorski og makríl við þessar aðstæður?

Ég verð bara að viðurkenna að ég hef spurt nokkra þingmenn hvort þeir séu tilbúnir að kaupa makrílkvóta á 10- eða 11-földu virði hans upp úr sjó og það segja allir nei. Svo koma menn í ræðustól og halda því fram að verðmætin séu þessi og þessi grundvölluð á sömu forsendum. (JÞÓ: En leigið þá ríkinu á markaðsverði.) Þetta er bara rangt. (Forseti hringir.) Það er verið að leigja af ríkinu.