144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

staðan á vinnumarkaði.

[17:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Allt sem mig langaði til að segja um þetta sagði í raun hv. 10. þm. Reykv. s., Jón Þór Ólafsson. Ég verð hins vegar að lýsa undrun minni með tvær ræður sem voru fluttar í dag. Aðra þeirra flutti hæstv. forsætisráðherra og hina hv. 7. þm. Reykv. s., Guðlaugur Þór Þórðarson. Ef ég skildi hæstv. forsætisráðherra rétt er hér allt í góðu og hlutirnir að batna. Það er svo sem eðlilegt eftir algjört fjármálahrun að hlutir batni í kjölfarið, það eru fáar leiðir aðrar en upp á við frá botninum eðli málsins samkvæmt og má benda á að sú þróun hefur verið til staðar fyrir tíð þessarar ríkisstjórnar, ekki að það skipti höfuðmáli hverjum hvað sé að þakka eða hverjum hvað að kenna í þessu samhengi.

Hins vegar stendur eftir að það vantar lausnir. Við getum ekki horft framan í þessi verkföll og látið eins og þetta sé bara einhver misskilningur af hálfu launþega, að þeir sem ætli í verkfall séu að misskilja allt saman og ættu bara að vera hérna og áfram á þessum launum og búa við sömu kjör og aldrei freistast til þess til dæmis að fara til útlanda. Sú freisting er mikil núna, sérstaklega hjá ungu kynslóðinni, sérstaklega hjá þeim sem eygja góð atvinnutækifæri erlendis sem vitaskuld eru fyrst og fremst sérfræðingar á ýmsum sviðum.

Þetta er alvarlegt mál og það er ábyrgðarhluti okkar allra, eins og hér hefur komið fram, að við finnum lausnir á vandanum. Það þýðir ekki að láta eins og vandinn sé ekki til staðar. Það þýðir enn fremur ekki að beita sífellt fyrir sig verðstöðugleika sem afsökun fyrir því að aðhafast ekkert eða í það minnsta afskaplega lítið. Ef peningastefna Íslands er rótin að þessu öllu saman, ef ástæðan fyrir því að ekki má hækka laun í landinu er peningastefnan, þurfum við nýja peningastefnu. Sumir hérna inni gætu bent á að kannski þurfum við hreinlega nýjan gjaldmiðil. Eitthvað þarf að gera. Við getum ekki byggt stöðugleika og peningastefnu Íslands á þeirri forsendu að einungis fáir útvaldir fái launahækkanir.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.