144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

vernd afhjúpenda.

380. mál
[17:15]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurn um mikilvægt mál og tækifæri til að gera grein fyrir stöðu þess. Á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir 143. löggjafarþing var gert ráð fyrir framlagningu frumvarps til laga um breytingu á stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, eins og hv. þingmaður gat um. Drög að frumvarpinu voru kynnt á vef ráðuneytisins í nóvember 2013 og send helstu hagsmunaaðilum. Fjölmargar umsagnir bárust og voru undirtektir almennt mjög jákvæðar en einnig bárust ábendingar sem þurfti að taka til skoðunar.

Frumvarpið var samið í kjölfar ábendinga frá stýrihópi sem skipaður var til að fylgja eftir ályktun Alþingis sem hv. þingmaður gat um frá 16. júní 2010 þar sem samþykkt var að Ísland skapaði sér afgerandi lagalega sérstöðu um vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Meðal annars yrði leitað leiða til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi auk þess sem vernd heimildarmanna og afhjúpenda yrði tryggð. Skýr og einföld ákvæði um þagnarskyldu eru ein forsenda tjáningarfrelsis opinberra starfsmanna. Það þarf að vera nægilega skýrt hvaða atriði opinberum starfsmönnum er frjálst að tjá sig um og um hver þeirra ríki þagnarskylda. Ef ákvæðin eru óskýr eða flókin er hættan sú að starfsmenn veigri sér við að tjá sig um málefni sem þó væri fullkomlega eðlilegt að þeir tjáðu sig um.

Bent hefur verið á að umræða hér á landi hafi enn sem komið er verið mun takmarkaðri um tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna en til dæmis annars staðar á Norðurlöndum. Þar hefur meginálitaefnið í umræðunni oft verið hvort og þá með hvaða hætti trúnaðar- og hollustuskylda opinberra starfsmanna takmarki tjáningarfrelsi þeirra.

Í íslenskum stjórnsýslurétti eru þagnarskylduákvæði bæði mörg og matskennd sem veldur því að beiting þeirra er flókin og hætt við því að réttarframkvæmd sé hvorki samræmd né fyrirsjáanleg. Með fyrirhuguðu frumvarpi verður lagt til að settar verði mun skýrari reglur þar sem afmarkað verði nánar inntak þagnarskyldu opinberra starfsmanna og hvaða hagsmuni þagnarskyldunni er ætlað að tryggja. Þar af leiðandi verði mun ljósara um hvaða atriði opinberum starfsmönnum er frjálst að tjá sig.

Í frumvarpsdrögunum er meðal annars ákvæði þess efnis að í stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga sé eingöngu heimilt að ákveða að upplýsingar lúti þagnarskyldu sé það nauðsynlegt til verndar ákveðnum opinberum eða einkahagsmunum sem taldir verða upp með tæmandi hætti í ákvæðinu. Undir þagnarskyldu falli ekki upplýsingar um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi starfsmanna stjórnvalda. Það þýðir að ekki verður hægt að refsa þeim sem koma á framfæri við þar til bæra aðila upplýsingum um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi starfsmanna stjórnvalda. Þar með verður tryggt að svokallaðir afhjúpendur munu njóta aukinnar lagalegrar verndar. Fremur en að auka við þagnarskyldu er markmið frumvarpsins fyrst og fremst að tryggja að þagnarskyldureglur verði skýrari, samræmdari og einfaldari. Eins og ég nefndi geta flóknar og óljósar þagnarskyldureglur gert opinberum starfsmönnum erfitt um vik að nýta tjáningarfrelsi sitt og eru skýrar þagnarskyldureglur því mikilvæg forsenda tjáningarfrelsis.

Virðulegur forseti. Í forsætisráðuneytinu er nú unnið að lokayfirferð og frágangi á umræddu frumvarpi og er stefnt að framlagningu á haustþingi 2015.