144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

áherslumál ríkisstjórnarinnar.

[16:27]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er tími til kominn að einhver komi hingað upp og rói mannskapinn. [Hlátur í þingsal.] En ég vil þó segja fyrst að þegar menn halda því af fullri alvöru fram að á síðasta kjörtímabili hafi verið samstaða um rammaáætlun þá er það argasta (Gripið fram í.) sögufölsun. Ég var hér, ekki reyna þetta.

Hér koma menn og segja að það sé svo mikið ósætti í þjóðfélaginu og þess vegna segi þeir, þegar við ætlum að ræða þessi mál, að við séum að henda handsprengju inn í þingið. Þetta sé vitfirring. Er þetta innlegg stjórnarandstöðunnar í því að koma meira sátt á í þjóðfélaginu? Er það þetta orðbragð sem menn vilja nota til að ná sáttum í þjóðfélaginu? (Gripið fram í.) Ég spyr, virðulegi forseti. (Gripið fram í.) Nú geta menn haft ýmsar skoðanir á þessum málum. En af því að menn tala um heimilin í landinu þá snýr þetta svo sannarlega að verðmætasköpun.

Það er alla vega ekki sannfærandi þegar menn koma (Forseti hringir.) hingað og skrökva því hreint og klárt að einhver sátt hafi verið um þessi mál og þegar menn tala með (Forseti hringir.) þeim hætti sem hér er.