144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

efling brothættra byggða og byggðafesta veiðiheimilda.

588. mál
[21:21]
Horfa

Flm. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er svo merkilegt með framsalið, sem margir hafa dásamað í gegnum tíðina, að þegar kemur að göllunum þá vakna menn upp við vondum draum, sérstaklega þegar það kemur við þeirra byggðarlag. Menn eru annars rólegir og hugsa: Já, já, þessi litlu byggðarlög úti á landi — það er nú tilhneiging að allir vilja fara suður á mölina. Þetta er nú bara svona, við getum ekkert spyrnt við fæti.

Það er ekki alveg þannig. Þetta er kjarninn í þessum byggðum sem þarf að halda utan um. Framsalið er með þessa miklu galla sem erfitt er að berjast við. Menn hafa skoðað ýmsar leiðir í því sambandi, m.a. það sem hv. þingmaður nefnir, að hægt sé að skylda menn til að selja aflaheimildir á viðkomandi svæði aftur, þeir séu að hluta til skyldugir til þess svo að sveitarfélagið fái möguleika á að vera milliliður og endurráðstafa aflaheimildunum. Það er einn möguleiki. Síðan er sá möguleiki að ríkið hreinlega taki til sín aflaheimildirnar fyrir ákveðið verð og bjóði þær aftur út. Það eru ýmsir möguleikar.

Ég hef alla tíð verið mjög andvíg þessu framsali og því hversu illa það hefur komið við þessar byggðir. Þess vegna horfi ég með hryllingi til þess ef leika á sama leikinn nú með makrílinn. Við erum búin að brenna okkur á (Forseti hringir.) þessu kerfi og búa við það allt of lengi. Ég vil gjarnan sjá miklar breytingar á því, en nú (Forseti hringir.) ætla menn að fara að gera nákvæmlega sama með makrílinn. Það (Forseti hringir.) er óásættanlegt.