144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það verður að harma að formaður Sjálfstæðisflokksins, hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson, skyldi ekki taka betur en raun bar vitni í útrétta hönd margra leiðtoga stjórnarandstöðunnar í þeim erfiðu kjaradeilum sem nú standa yfir. Það er síðan alveg sérstök ástæða til þess að hafa áhyggjur af því og það er að verða sjálfstætt vandamál í íslensku efnahagslífi að fjármálaráðherra telji að jöfnuður sé orðinn of mikill á Íslandi og að hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson leyfi sér að tala um tugi þúsunda Íslendinga eins og þeir séu ekki að greiða skatta til samfélagsins.

Það er ástæða til þess að vekja athygli hæstv. fjármálaráðherra á því að tugir þúsunda Íslendinga, m.a. aldraðir, öryrkjar og láglaunafólk í landinu, búa við kjör sem eru um 200 þús. kr. eða rétt yfir. Meðan svo er þá er jöfnuður sannarlega langt því í frá að vera of mikill. Fjölmargt af þessu fólki hefur fyrir löngu staðið skil á sköttum sínum og skyldum til samfélagsins þó að það greiði ekki skatta akkúrat í augnablikinu. Eins er um námsmenn sem leggja tímabundið ekkert í ríkissjóð en þeir eiga eftir að gera það svo um munar á starfsævi sinni.

Það skiptir öllu máli að við aukum jöfnuð í samfélaginu til að bæta hag okkar allra. Það er ástæða til þess að vekja athygli hæstv. fjármálaráðherra á því að rannsóknir á fátækt barna sýna að við gerum mun minna af því að flytja fé á milli tekjuhópa í skattkerfi okkar en aðrar þjóðir. Það er ekki vegna þess að við gerum of mikið (Forseti hringir.) af því að tekjujafna í gegnum skattkerfið, heldur gerum við sannarlega of lítið af því. (Forseti hringir.) Við þurfum að auka það til þess að draga úr fátækt barna á Íslandi og (Forseti hringir.) … þá velferð sem er annars staðar á Norðurlöndum.