144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér tala menn um ýmsa hluti eins og til dæmis sundurlyndisfjandann, það að við þurfum að taka upp vinnubrögð eins og eru á Norðurlöndunum — og eru þau eðli málsins samkvæmt misjöfn. En af hverju, ef menn vilja nú vinna málin saman eins og menn segja alla vega í orði kveðnu, skoðum við ekki hvernig er unnið þegar kemur til dæmis að kjaramálum á Norðurlöndunum, berum það saman við hvað er í gangi hér? Það væri áhugavert að vita hve margar vinnudeilur á Norðurlöndunum hafa verið leystar hjá þjóðþingum viðkomandi landa.

Nú er það þannig að fjölmiðlar hafa fjallað ágætlega um þetta, farið yfir þau módel sem eru í gangi í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Ég held að það væri ágætt ef hv. velferðarnefnd færi bara aðeins yfir það og bæri það saman við ástandið eins og það er núna. Ég vildi gjarnan að hv. stjórnarandstöðuþingmenn færu yfir það hvar vinnudeilur eru leystar í þingsal. Í hvaða löndum er það? (Gripið fram í.)

Af því að menn eru að tala um forgangsröðun og hvernig við eigum að vinna hér: Ég sakna þess — þegar kemur skýrsla frá landlækni sem segir, sem er stórfrétt, að öryggi sjúklinga sé ógnað miðað við núverandi ástand, að öryggi sjúklinga sé ógnað — að heyra ekki einn einasta þingmann tala um það. Ég mælist til þess að það sé forgangsmál hjá hv. velferðarnefnd að fara yfir það mál. Ég vek athygli á því að hér kemur landlæknir og segir að öryggi sjúklinga sé ógnað. Við getum haft allar skoðanir á stöðunni á kjaramálunum og öðru slíku, en þetta hlýtur að vera forgangsmál. Hv. velferðarnefnd, sem á að fylgjast með þessum málum, ætti að hafa það sem forgangsmál að (Forseti hringir.) fara yfir það mál, því að við megum ekki ógna öryggi sjúklinga.