144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:34]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég hafði hugsað mér að gera grein fyrir mínu áliti hér á eftir við umræðu um málið, en í ljósi þess sem hér er verið að ræða vil ég vekja athygli þingheims á því að í bréfi sem ég hef undir höndum frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og hef lesið og er í nefndaráliti mínum stendur meðal annars, með leyfi forseta:

„Í ljósi fyrri umfjöllunar verður að telja að þar sem verkefnisstjórn fjallaði ekki efnislega um fimm tilgreinda virkjunarkosti [þ.e. Skrokköldu, Hágöngur I og II, Hagavatn og Hólmsá v/Atley, eins og lög nr. 48/2011 gera ráð fyrir], séu umræddir virkjunarkostir enn þá í umfjöllun hjá verkefnisstjórn að mati umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Verkefnisstjórnin hefur ekki skilað tillögu um flokkun þessara kosta til ráðherra og þingsályktun[artillagan] sem nú liggur fyrir Alþingi tekur ekki til þeirra kosta.“

Takið þið svo vel eftir, virðulegi forseti:

„Það er því mat umhverfis- og auðlindaráðuneytisins að lög nr. 48/2011 geri ekki ráð fyrir að Alþingi geti gert breytingar á flokkun þessara kosta þar sem lögbundið ferli verndar- og orkunýtingaráætlunar hefur ekki farið fram hvað þá varðar.“

Ég spyr, virðulegi forseti, af því að við njótum þess nú að hér situr umhverfis- og auðlindaráðherra: Er ráðherrann ekki enn þá sömu skoðunar og fram kemur á því gagni (Forseti hringir.) sem kom frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu (Forseti hringir.) um þetta tiltekna mál?