144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[20:52]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hér séu hafnar málefnalegar umræður um þetta mál. Hv. þingmanni verður tíðrætt um þessa skýrslu sem hann er stoltur af þar sem verkefnisstjórn gerir rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði.

Hv. þingmaður lýsir því að þetta hafi verið stórt og mikilvægt skref í sátt. Þess vegna spyr ég hann: Voru það ekki mikil vonbrigði þegar þessi sátt var rofin af fyrrverandi ráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, með því að færa sex virkjunarkosti út nýtingarflokki í bið, þar af fjóra í vatnsaflsvirkjun, þannig að það voru aðeins þrír vatnsaflskostir í nýtingarflokki og 14 í gufuaflsvirkjunum? Það segir í þessu plaggi að Hvammsvirkjun hefði getað farið af stað 2015, Holtavirkjun 2016 og Urriðafoss jafnframt 2016. (Forseti hringir.) Voru þetta ekki mikil vonbrigði og værum við ekki í aðeins betri stöðu í dag ef ráðherra hefði farið eftir þessu og ekki brotið sáttina strax?