144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:42]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ofríki meiri hlutans, sagði þingmaðurinn hérna áðan. Eigum við ekki bara að kalla hlutina réttum nöfnum? Ofríki hv. þm. Jóns Gunnarssonar væri miklu nær að kalla þetta. Er það ekki þannig að hv. þingmaður hefur haft undir ekki einn hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra heldur tvo? Að vísu hefur það ekki tekið hann nema rösklega eitt ár. En við skulum bara kalla hlutina réttum nöfnum. Það er það sem hér er að gerast. Síðan hæðir hv. þingmaður hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra með því að segja glottandi að hún sé samningalipur. Það er auðvitað vegna þess að hann hefur með afli sínu og valdi haft hana undir í málinu. Það er bara staðreyndin. Ég held að engum sé vorkunn og allra síst hæstv. ráðherra að halda ræðuna núna. Ég hef beðið eftir því að hlusta á hæstv. ráðherra. Ég tel að hún þurfi, eins og hún sagði kokhraust hér í dag, að standa fyrir sínu máli sjálf og ég er viss um að hún getur það, en við þurfum að vita hvort hún ætlar að virða stjórnarskrána og fylgja þeirri sannfæringu (Forseti hringir.) sem hún hafði uppi í sjónvarpinu í kvöld.