144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

störf þingsins.

[16:00]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég óskaði eftir því að eiga orðastað við hv. þm. Jón Gunnarsson, formann atvinnuveganefndar, út af stöðu makrílfrumvarpsins í nefndinni. Það hefur komið fram hjá gestum sem komið hafa á fund nefndarinnar og í umsögnum um málið að eiginlega allir eru óánægðir með þetta frumvarp. Það hefur komið fram á fundum nefndarinnar, meðal annars við spurningum mínum til aðila um hvað þeir vilji láta gera við frumvarpið, að flestir eru komnir á þá skoðun að best sé að láta það liggja, daga uppi.

Landssamband smábátaeigenda hefur bent á, og ég er sammála því, að þetta er mjög ósanngjarnt gagnvart þeim vegna þess að þeir hófu veiðar seint og makrílgöngur hafa verið þannig að til dæmis Vestfirðingar, Norðlendingar og Austfirðingar hafa mjög litla veiðireynslu til að byggja á. Þetta á líka við um stóru aðilana sem finnst það ósanngjörn skipti ef þessi leið verður farin. Þar skarast á lög um veiðar utan íslenskrar landhelgi og aftur fiskveiðistjórnarlögin, þ.e. hvernig ætti að gera þetta ef sú leið yrði farin.

Í þessu frumvarpi er heldur ekkert skrifað um hvað það eigi að verða til margra ára ef makríllinn verður hlutdeildarsettur, hvergi er getið um árafjölda. Það er því hægt að hafa þetta óbreytt, úthluta þessu til eins árs í senn.

Þess vegna ætlaði ég að spyrja hv. þm. Jón Gunnarsson hvort hann sé ekki tilbúinn, eins og með hitt vonda málið, náttúrupassann, þar sem hann gaf opinberlega út dánarvottorð á það frumvarp, að gefa út slíkt vottorð fyrir makrílfrumvarpið líka. (Forseti hringir.) Mér sýnist það fá álíka viðtökur, hrakfarir, (Forseti hringir.) frumvarp sem ætti ekki að klára.