144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[15:25]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra varð tíðrætt um kjarasamninga og að það væri gott innlegg í kjarasamninga að klára þetta mál og fara í virkjanir á þeim kostum sem þarna liggja undir. Mér þætti fróðlegt að vita hvort verkalýðshreyfingin, hvort sem er BHM, Alþýðusambandið eða Starfsgreinasambandið, hafi ályktað eitthvað um að verið sé að hvetja til þess að leggja þetta mál fram núna akkúrat til að liðka til við gerð kjarasamninga. Þá hlýtur að koma ákall frá þessum stóru heildarsamtökum eða þeim sem eru í verkfalli. Hefur til dæmis komið ákall frá dýralæknum til forsætisráðherra um að drífa í að afgreiða þessa áætlun með breytingartillögum hv. þm. Jóns Gunnarssonar? Eða geislafræðingum eða starfsfólki á bensínstöðvum vestur á fjörðum? (Forseti hringir.) Nei, mér finnst að hann þurfi að sýna fram á að þetta ákall hafi komið fram.