144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[15:27]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. forseta hvort hann hafi óskað eftir því að umhverfisráðherra og forsætisráðherra sætu hér við þessa umræðu. Mér finnst svo mikið af rangfærslum í umferð að ég tel mikilvægt að við séum öll hér og eigum samtal um þetta mál. Ef þetta er forgangsmál ríkisstjórnarinnar hljóta menn að vera hér og taka umræðuna með okkur.

Þá er líka merkilegt hvernig menn reyna einhvern veginn að teikna upp þá mynd að þetta sé hin mikla ríkisstjórn framkvæmda og að fráfarandi ríkisstjórn hafi verið aðgerðalaus í þeim efnum þegar það voru bara óvart sett af stað á þriðja hundrað megavött á síðasta kjörtímabili. Við getum horft til Búðarhálsvirkjunar og Hellisheiðarvirkjunar og síðan voru sett af stað verkefni fyrir norðan líka.

Þessi umræða er ekki til bóta. Menn geta ekki skýlt sér á bak við einhver ósannindi. Menn verða að koma hingað og eiga samtal við okkur um leikreglurnar. Það er það (Forseti hringir.) sem við erum að mótmæla hér, að menn fari á svig við þær með jafn afgerandi hætti og raun ber vitni.