144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

viðvera forsætisráðherra í umræðu um rammaáætlun.

[15:38]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. forseti tekur ákvörðun um dagskrá fundar. Þess vegna eru umræður um dagskrá ekkert annað en umræður um fundarstjórn forseta. Þegar þingheimur er mjög andsnúinn því að tiltekið mál sé á dagskrá en er eigi að síður sett á dagskrá eiga þeir sem eru andstæðir þeim gjörningi engan kost annan en þann að mótmæla því að málið sé á dagskrá. Það eru umræður um fundarstjórn forseta og ekkert annað.

Þegar þingmenn þurfa síðan að færa rök fyrir því hvers vegna málið er ekki á dagskrá má vel vera að það sé rétt hjá hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni að það séu efnislegar umræður en í þessu tilviki er ekki hægt með öðru móti að rökstyðja þessa afstöðu hv. þingmanna. Ég leyfi mér því að vera algerlega ósammála meginorðum hv. þm. Höskulds Þórhallssonar um þetta mál.