144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[16:56]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hvert furðumetið á fætur öðru fellur í þessari umræðu. Hér er lögð fram breytingartillaga, eins og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir nefndi, með greinargerð sem er einhver sú sérkennilegasta og líklega sú versta sem um getur í sögu þingsins. Hún er ein setning og síðari hluti hennar er:

„… og hefur meiri hlutinn auk þess komist að samkomulagi við umhverfis- og auðlindaráðherra um tillögu í þessa veru.“

Er verið að gera grín að okkur? Það er verið að rífa þetta mál úr faglegu ferli vegna þess að meiri hluti atvinnuveganefndar telur sig betur til þess bæran að meta hvað eigi að fara í nýtingarflokk og hvað ekki og hann rökstyður það með þessum hætti.

Hér er niðurlæging Alþingis algjör. Hún hefur náð nýjum hæðum með þessum tillöguflutningi. Hann er til marks um allt málið í heild sinni, hvernig þessi stjórnarmeirihluti fúskar í vinnubrögðum sínum frá A–Ö í þeim eina tilgangi (Forseti hringir.) að tudda vilja sínum hér í gegn. Má ég að minnsta kosti biðja um það, virðulegi forseti, af því að hv. þm. Þórunn Egilsdóttir er hér í hliðarherbergi, þingmaður sem stendur að þessu, að menn reyni að koma með efnislegan rökstuðning fyrir tillögum sínum á Alþingi? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)