144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:48]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp út af því að í þessari umræðu hefur svo oft verið talað um pólitísk hrossakaup á síðasta kjörtímabili; ég kem hingað upp flokkssystur minni, hv. þm. Oddnýju Harðardóttur, til varnar. Hún er einn vandaðasti þingmaðurinn sem situr hér á Alþingi. Við sem höfum starfað með henni vitum hvers konar vinnubrögð hún viðhefur. Hún vandar mjög til verka og byggir verk sín á upplýsingum. Ég var með henni í þingflokki þar sem hún vann að framsetningu rammaáætlunar ásamt þáverandi umhverfisráðherra og ég tek það mjög alvarlega að síendurtekið sé vegið að starfsheiðri hennar. Þegar búið er að segja hlutina nógu oft þá fara þeir að verða sannleikur svo að ég kem hingað upp til að mótmæla þessu því að mér misbýður að þetta fái að viðgangast hér.