144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[19:01]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn nefndi að hann hefði miklar athugasemdir við dagskrá þingsins. Ég er með tvær spurningar, annars vegar þessa: Nú voru greidd atkvæði áðan um dagskrá þingsins og það er alveg ljóst að menn ná ekki saman um dagskrána, bara eins og gengur og gerist í lýðræðislegum umræðum. Sitt sýnist hverjum, og nú hefur meiri hlutinn kosið. Þarf ekki minni hlutinn að beygja sig undir þá tillögu? Ég velti því fyrir mér.

Hin spurningin er þessi: Þegar farið er upp í fundarstjórn forseta, er eðlilegt samkvæmt þingsköpum, af því að ég veit að þingmaðurinn er mjög vel að sér í þingsköpum, að það fari um leið fram efnisleg umræða?