144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:32]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson var hér með umvandanir gagnvart okkur þingmönnum, að við værum að fara efnislega í mál undir liðnum um fundarstjórn forseta. En honum finnst allt í lagi, hv. þingmanni, að fara algjörlega á svig við lög og sér ekkert athugavert við að skauta fram hjá þeim þegar það hentar.

Hæstv. umhverfisráðherra Sigrún Magnúsdóttir skýrði vel út á sínum tíma, stuttu eftir að hún tók við, að hún vildi að þessir kostir færu til verkefnisstjórnar, sem ætti að taka við þessum verkefnum. Hún lýsti því líka yfir að hún hefði þurft að lúta í gras fyrir hv. formanni atvinnuveganefndar og meiri hluta atvinnuveganefndar. Það er bara þannig. Þannig er veruleikinn. Þetta væri komið úr hennar höndum og þingið væri komið með þetta. En þetta var hennar skoðun. (Gripið fram í.) Þetta er sannleikur, (Gripið fram í.) þetta er bara sannleikur og opinbert og hægt að fletta þessu upp. (Forseti hringir.) Ég skora því á hv. þm. Höskuld Þór Þórhallsson að standa með sínum ráðherra í þessu máli, í faglegu ferli.