144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:35]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Á 3. fundi 4. október árið 2011 kom hér upp í ræðustól þingmaður sem las upp úr bréfi frá Ríkisendurskoðun til þess að sanna sitt mál vegna þess að hann taldi að á sig hefði verið hallað í umræðunum á undan. Þessi hv. þingmaður heitir Höskuldur Þórhallsson og hefur ekki úr mjög háum söðli að detta í þessari umræðu ef menn leika sér að því að skoða ræður hans um fundarstjórn forseta þannig að ég ætla að frábiðja mér umvandanir frá þessum hv. þingmanni sem er, getum við sagt, frekar en nokkuð annað leiðarljós mitt í því með hvaða hætti eigi að fara í fundarstjórn forseta.

Virðulegi forseti. Ég ætla að nota þetta tækifæri og segja að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson fór líka rangt með hér áðan í fyrri umræðum um fundarstjórn forseta þar sem hann hélt því fram að stjórnarandstaðan hefði kallað eftir hálfgerðum neyðarfundi með gestum í kvöldverðarhléi um afdrif Reykjavíkurflugvallar og skipulagsmál hans. (Gripið fram í.) Það er rangt. Það er rangt. Það er einfaldlega þannig að þessi fundur, gestakoman og sirkusinn í kringum þetta var alfarið á ábyrgð formanns nefndarinnar, hv. þm. (Forseti hringir.) Höskuldar Þórs Þórhallssonar. (HöskÞ: Það sagði ég ekki. … ofsalega ósatt.)

(Forseti (SilG): Forseti biður hv. þingmenn um að taka tveggja manna tal afsíðis.)