144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:57]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er náttúrlega mjög margt sem mér þykir slæmt við þessa tillögu meiri hlutans og nánast allt, en það er ekki bara slæmt út af forminu, við höfum mest rætt um formið, en við eigum eftir nógan tíma til að ræða efnisinnihaldið, bæði út frá umhverfislegum rökum og líka út frá hinum efnislegu. Það stendur ekki steinn yfir steini þegar hv. þingmenn meiri hlutans koma hér upp og tala um þessar virkjanir sem efnahagslega nauðsyn á sama tíma og sama ríkisstjórn og sömu hv. þingmenn greiða atkvæði um það og styðja það að lækka auðlindagjöld í sjávarútvegi, lækka orkuskatta, róa að því öllum árum að tryggja það að almenningur í landinu njóti ekki hagnaðar af nýtingu auðlindanna, því það virðist vera stefnan. Á sama tíma og nýta á þessar auðlindir enn frekar á að tryggja það að almenningur fái ekki hlutdeild í arðinum af auðlindinni. Það er sama hvert litið er, hvort litið er til umhverfislegra raka, (Forseti hringir.) samfélagslegra eða efnahagslegra, þá stendur ekki steinn yfir steini í þessari tillögu meiri hlutans. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)