144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

rammaáætlun og kjarasamningar.

[10:25]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Fyrst þetta, það er mikill munur, reginmunur, á því hvernig farið er með þessar tillögur frá verkefnisstjórn núna og á síðasta kjörtímabili. En burt séð frá því eigum við auðvitað að horfa á það hvernig lögin eru skrifuð og einbeita okkur að því að fara eftir þeim. Það er auðvitað leiðinlegt að staðan skuli vera svona í þinginu. Það var varað mjög sterklega við því í upphafi síðustu viku að svona mundi þetta verða ef þetta mál yrði sett á dagskrá með þessum hætti.

Það eru brýn úrlausnarefni á leiðinni inn í þingið sem ég held að við séum öll sammála um að við þurfum að leysa áður en þingi lýkur. Það eru mál um losun hafta, húsnæðismál, mögulegt útspil ríkisstjórnarinnar til að leysa kjaradeilurnar. Það er á ábyrgð meiri hluta þingsins að velta fyrir sér inn í hvaða andrúmsloft slíkar tillögur koma og hvernig meiri hluti þingsins (Forseti hringir.) vill hafa andrúmsloftið hérna þegar við tökumst á við þessi sameiginlegu verkefni. Það var varað mjög sterklega við því að þetta mundi setja hér allt í hnút, þannig að menn geta einfaldlega ekki komið hérna upp og hneykslast á þeirri stöðu sem komin er upp sem þeir fóru út í með bæði augun galopin.