144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

lengd þingfundar.

[12:10]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég greiði atkvæði gegn þessari tillögu um kvöldfund enda tel ég ekki ástæðu til þess að hafa hann á meðan afar lítil samræða á sér stað meðal stjórnar meiri hluta og minni hluta.

Ég get tekið undir með hv. þingmanni sem hér talaði á undan, í morgun vaknaði maður við haglél, síðan fór að snjóa og það lýsir kannski svolítið ástandinu sem er að verða hér inni, hálfgert alkul.

Ég vil taka undir orð hv. formanns þingflokks Vinstri grænna, Svandísar Svavarsdóttur, um það að ef forseti fer ekki að beita sér fyrir lausn þessara mála milli stjórnar og stjórnarandstöðu er viðbúið að það verði mjög illt í efni hérna fram undan, því miður. Eftir því sem dagarnir líða og ekki er reynt að tala saman er alveg ljóst að fólk forherðist og er síður tilbúið til að sjá einhverja fleti á samstarfi og lausnum.