144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

lengd þingfundar.

[12:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hvorki þetta þing né þjóð hefur nokkuð að gera við lengri þingfund í dag. Það er almenn heimild til kl. 8, það ætti alveg að duga. Vandinn er hins vegar sá að við þurfum að ræða mjög mikið fundarstjórn forseta, hún er afleit eins og vonandi er frægt orðið.

Það sem við ættum frekar að gera er að búa til sérmál, skýrslu eða eitthvað, þar sem við ræðum fundarstjórn forseta og vinnubrögðin hér á Alþingi í heilli umræðu. Þar fengju menn nægan tíma til að segja það sem þeim finnst um þau almennt, hvernig vinnubrögðin hér eru með fullum andsvörum o.s.frv. Það held ég að gæti orðið uppbyggilegt. Það mundi ég vissulega vilja ræða langt fram á nótt þrátt fyrir Eurovision í kvöld — ekki segja unnustu minni að ég hafi sagt það.

Ég ætla að greiða atkvæði á móti þessari tillögu vegna þess að þetta er óþarft og hér kemur rangt mál til umræðu. Það er svo margt annað sem við gætum verið að ræða og þá væri miklu meira tilefni til að halda hér kvöldfund.