144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

markaðslausnir í sjávarútvegi.

[14:46]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að óska eftir þessari umræðu. Ég held að flestir þingmenn geti verið sammála um mikilvægi þess að ná bærilegri sátt um skipan sjávarútvegsmála en því miður hefur okkur ekki tekist það enn þrátt fyrir ýmsar tilraunir. Skemmst er frá því að segja að á síðasta kjörtímabili var skipuð þverpólitísk nefnd til að fjalla um skipan sjávarútvegsmála með aðild fulltrúa helstu hagsmunaaðila og stjórnmálaflokka. Nefndin vann gott starf og skilaði ágætri vinnu þó að henni hafi ekki tekist frekar en fyrri nefndum að leggja fram tillögur sem breið samstaða næðist um.

Þegar kvótakerfið var tekið upp fyrir rúmum 30 árum var það einkum gert til að bregðast við allt of stórum fiskiskipaflota, gegndarlausri ofveiði og látlausu tapi á útgerðinni, í það minnsta langflestum útgerðarfyrirtækjum, sem sífellt var verið að bregðast við með gengisfellingum og tilheyrandi minnkun kaupmáttar. Gripið var til fjölmargra annarra ráðstafana í sjávarútvegi í framhaldinu. Þar má nefna afnám flókins sjóðakerfis, svo sem Aflatryggingasjóðs og Verðjöfnunarsjóðs, en þetta millifærslukerfi var reyndar orðið það flókið undir lokin að einungis fáir menn þekktu innviði þess

Síðan komu þjóðarsáttarsamningarnir 1990 og sumir halda því fram að ein veigamesta forsendan fyrir þeim hafi verið þær skipulagsbreytingar sem gerðar höfðu verið á skipan sjávarútvegsmála á áratugnum á undan sem sköpuðu forsendur fyrir meiri stöðugleika í efnahagsmálum en áður hafði þekkst. Í upphafi var ekki um það að ræða að sjávarútvegurinn gæti greitt fyrir aflaheimildir sínar heldur var meginviðfangsefnið að koma greininni á réttan kjöl eftir margra ára taprekstur, minnka afkastagetu flotans og koma á sjálfbærri nýtingu fiskstofna. Þessi markmið hafa gengið eftir og þannig í raun voru notaðar markaðslausnir við þessa úrlausn.

Á þessum 30 árum hefur margt breyst. Árið 1981 veiddum við 460 þús. tonn af þorski og útflutningsverðmæti hans nam 303 milljónum bandaríkjadollara. Árið 2013 veiddum við 236 þús. tonn af þorski en þá nam útflutningsverðmætið 720 milljónum bandaríkjadollara. Magnið minnkaði sem sagt um tæpan helming en verðmætið gerði meira en að tvöfaldast á sama tíma. Hér hefur því náðst gríðarlegur árangur og reyndar er þessi þróun ekki bara bundin við veiðar og vinnslu á þorski heldur á þetta meira og minna við um alla þróun í sjávarútvegi. Þó skiptir mestu máli sá mikli árangur sem náðst hefur varðandi uppbyggingu þorskstofnsins en þar höfum við haldið vel á spilunum og fylgt meira og minna vísindalegri ráðgjöf í 30 ár. Ekki má heldur gleyma að við höfum nýtt vel tækifæri til að auka veiðar í stofnum sem við nýttum ekkert á árum áður Það má nefna úthafskarfa, úthafsrækju, kolmunna, makríl og veiðar í Barentshafi.

Ekki er endilega víst að allt þetta hefði gerst ef við hefðum haldið áfram á þeirri braut sem var fyrir daga kvótakerfisins. Raunar leyfi ég mér að fullyrða að tilkoma kvótakerfisins og möguleiki útgerða til að selja aflaheimildir og ráðstafa sín á milli hafi skapað grundvöll fyrir sókn í nýjar tegundir, bæði innan og ekki síður utan lögsögu. Með öðrum orðum, við höfum aftur beitt markaðslausnum við stjórn á sjávarútveginum.

Allir landsmenn hafa með einum eða öðrum hætti notið þess góða árangurs sem náðst hefur í sjávarútveginum. Við höfum nú trygga stjórn á nýtingu helstu fiskstofna og allt bendir til þess að við getum skilað þessari mikilvægu auðlind með ábyrgum hætti til komandi kynslóða.

Þrátt fyrir þennan góða árangur standa enn yfir deilur um skipan sjávarútvegsmála. Þegar betur er að gáð held ég að hægt sé að fullyrða að deilurnar snúist ekki nema að litlu leyti um kerfið sem slíkt. Frekar má segja að deilurnar snúist annars vegar um eignarhald sjávarauðlindanna og hins vegar um gjald til þjóðarinnar fyrir afnot af þeim. Ekki má heldur gleyma þeim sjónarmiðum að fiskveiðikerfið verði jafnframt að taka tillit til þeirra byggða sem byggja grundvöll sinn á sjávarútvegi. Rétt er þó að hafa í huga að slík sjónarmið kunna að stangast á við hugmyndina um eignarhald þjóðarinnar og gjaldtöku fyrir nýtinguna.

Ég hef verið talsmaður þess að reynt verði til þrautar að ná sátt um skipan sjávarútvegsmála. Ég veit að margir þingmenn úr öllum flokkum deila þeirri sýn með mér. Sem lið í þeirri viðleitni lét ég semja frumvarp síðasta vetur þar sem tekið var á þeim viðfangsefnum sem einkum sæta deilum. Í 1. gr. þess frumvarps er til dæmis gerð tillaga um afdráttarlaust beint eignarhald ríkisins og forræði á aflaheimildum. Gerðir verði afnotasamningar til tiltekins tíma um nýtingu gegn greiðslu leigugjalds með svipuðum hætti og almennt tíðkast, t.d. er varðar leigu fasteignaréttinda eða annarra gæða í eigu ríkisins. Í frumvarpinu er jafnframt ákvæði sem miði að því að tryggja til langs tíma ráðstöfun á tilteknu hlutfalli aflaheimilda til félagslegra þarfa, til byggðafestu. Það er mín skoðun að það fyrirkomulag sem lagt er til í frumvarpinu geti orðið grundvöllur sáttar. Jafnframt tel ég brýnt að setja ákvæði í stjórnarskrána þar sem skýrt kemur fram að auðlindir sjávar séu í eigu þjóðarinnar, og reyndar fleiri auðlindir.

Sátt þýðir ekki að allir verði sáttir og seint mun svo verða þegar svo miklir hagsmunir eru undir. Allir sem þekkja til í sjávarútvegi vita að uppboð aflaheimilda, sem hér hefur verið nefnt, mundi samstundis leiða til mikilla breytinga. Stærstu fyrirtækin mundu fyrst og fremst kaupa aflaheimildirnar og hefðu það í hendi sér hverjir fengju að veiða og vinna fisk og hverjir ekki. Það gæti vel verið að þessi aðferð (Forseti hringir.) mundi í fyrstu skila meiri fjármunum í ríkissjóð en aftur á móti er ljóst að áhrifin yrðu mjög mikil og fjölmörg vandamál mundu lenda í fangi ríkisins.