144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

markaðslausnir í sjávarútvegi.

[15:11]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum um stjórnkerfi fiskveiða, markaðslausnir í sjávarútvegi. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Björt Ólafsdóttur, fyrir að taka þetta mál hér á dagskrá. Þetta er verðug og þörf umræða í því samhengi að stöðugt ákall er um að þjóðin geti fengið stærri skerf af auðlindinni, stærri en hingað til.

Það stjórnkerfi sem við höfum byggt upp, kvótakerfið, byggir á markaðslausn á grundvelli veiðiheimilda og hefur sannarlega skilað tekjum í þjóðarbúið og tryggt ábyrgar, sjálfbærar veiðar og rekstrarhæfan sjávarútveg. Íslenski sjávarútvegurinn er til að mynda sá eini innan OECD sem ekki er ríkisstyrktur á sama tíma og hann greiðir — og nú miða ég við árið 2013 — um helming síns hagnaðar veiða og vinnslu til þjóðarbúsins í formi veiðigjalda, tekjuskatts og tryggingagjalda, hátt í 30 milljarða.

Við getum svo spurt okkur um kosti og galla þess kerfis sem hér er um rætt, að aflaheimildir fáist á grundvelli uppboða, og þannig ráði markaðurinn því hvaða verð þjóðin fær fyrir veittar heimildir. Um leið spyr maður sig að því hvort slíkt kerfi leiði til aukins ávinnings og meiri sáttar en hingað til. Mögulega, en við verðum að vita hvaðan við erum að koma til þess að geta tekið svo stóra afdrifaríka ákvörðun. Undir eru auðvitað hin efnahagslegu markmið um rekstrarhæfni atvinnugreinarinnar, hverju hún megnar að skila til þjóðfélagsins og svo á hinn bóginn atvinnu- og byggðatengd sjónarmið.

Kannski má segja að þar stangist á markmið um hagkvæmni eða afrakstur og svo hin félagslegu markmið. Ég fæ ekki séð hvernig forðast eigi, ef full hagkvæmni á að nást með slíku kerfi, aukna samþjöppun í greininni og þá á kostnað atvinnuuppbyggingar úti um landið og jafnari afrakstur í byggðalegu tilliti. Það fer síðan alfarið eftir því hver markmiðin eru hversu samrýmanleg þau geta verið þeim hámarksafrakstri, rekstrargrundvelli smærri fyrirtækja víða um land (Forseti hringir.) og aukinni sátt um auðlindina sem sóst er eftir.