144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:09]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er ekki góður bragur á því að ákvarðanir á borð við þá sem hv. þingmenn hafa gert að umtalsefni hér á undan mér, þ.e. ákvörðun um sameiningu Iðnskólans í Hafnarfirði og Tækniskólans, berist fyrst þingmönnum til eyrna í fjölmiðlum, og að hér hafi orðið töluverð bið á að svara fyrirspurnum um sameiningu framhaldsskóla. Ég benti á það áðan að hér inni hefur legið fyrirspurn frá fyrri hluta aprílmánaðar um hugsanlegar sameiningar framhaldsskóla. Það er mjög óheppilegt að menntamálaráðuneytið sendi núna frá sér yfirlýsingar vegna þess sem hefur komið fram á Alþingi í dag án þess að hæstv. ráðherra hafi fengið tækifæri til að mæta til þings og svara fyrir sig í þeim efnum. Vonandi mun það tækifæri gefast á morgun í sérstakri umræðu en ein sérstök umræða er auðvitað ekki nóg til að fara yfir þær heildarstefnubreytingar sem eru að verða á málefnum framhaldsskólans. Ég tel því mjög æskilegt að forsætisnefnd og virðulegur forseti (Forseti hringir.) fari nákvæmlega yfir það hvernig Alþingi eigi að fara yfir slík mál því að þau (Forseti hringir.) varða svo sannarlega þingheim.