144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:07]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni þessa spurningu. Ég hef varpað henni fram til nokkurra hv. þingmanna og hæstv. forsætisráðherra sem sagði að mörg verkefni vantaði orku en tilgreindi þau ekki. Nú skilst mér að fjögur kísilver séu í undirbúningi. Eftir því sem mér hefur skilist hefur einungis eitt þeirra ekki verið fulltryggt hvað varðar orku. Engin önnur verkefni hafa verið nefnd í mín eyru fyrir utan að enn er talsverð óvissa um þetta kísilver. Þessi flýtir er mér því óskiljanlegur.

Ég hef spurt hv. þingmenn og þeir hafa ekki viljað nefna nein tiltekin verkefni þannig að ég veit eiginlega ekki hvað ræður för í þessum flýti. Þetta tengist kannski því að vilja ná einhverju fram en ganga um leið, eins og ég segi, á þessa faglegu ferla. Mér finnst ekki hafa verið færð nein sannfærandi rök fyrir því að menn staldri ekki við.

Eins og hv. þingmaður sagði réttilega eigum við von á röðun þessara kosta. Verkefnisstjórn 3. áfanga mun halda áfram að meta þá kosti sem hér eru til umfjöllunar, sem lagt er til af meiri hluta hv. atvinnuveganefndar Alþingis að færist yfir í nýtingarflokk. Verkefnisstjórnin mun halda áfram að meta þá. Engin slík verkefni hafa að mínu viti verið nefnd í þessari umræðu sem skapa forsendur til þess að við bíðum ekki eftir þessum niðurstöðum svo að við getum tekist efnislega á um málin án þess að skapa óvissu um gildi niðurstöðu Alþingis eins og hv. þingmaður nefndi. Hv. þm. Kristján Möller hefur ítrekað bent á það sama en hann á einnig sæti í atvinnuveganefnd og hefur viðrað hættuna á því að jafnvel geti komið til málaferla um einstaka kosti.