144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:09]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég er að reyna að glöggva mig hér, í lestri á tillögunni sjálfri, á stærð Hvammsvirkjunar, sem ég man ekki í fljótu bragði hver er. Mig rámar í að hún skipti einhverjum tugum megavatta, sé einhvers staðar í kringum 40 eða 50 megavött, það dugar nú alldrjúglega til að knýja kísilver. Ef einungis er um að ræða eitt kísilver sem ekki hefur verið gengið frá samningum um vegna skorts á orku þá er það nú lítið vandamál með samþykkt þeirrar tillögu eins og hún liggur fyrir frá hæstv. ráðherra. Er þá ekki einfaldlega ljóst að hér er farið af stað án fyrirheits? Það er engin sérstök efnisleg þörf á þessu óðagoti. Það er bara verið að tefla í hættu brýnum og mikilvægum samfélagshagsmunum og það er engin sýn um það til hvers æðibunugangurinn er að öðru leyti en því að meiri hluti atvinnuveganefndar hefur (Forseti hringir.) áhuga á að niðurlægja umhverfisráðherrann og sýna vald sitt.(Gripið fram í.)